Innlent

Stór og erfið ákvörðun fyrir Hafnfirðinga

Pétur á kjörstað í dag.
Pétur á kjörstað í dag.

„Við erum bara mjög ánægð,“ sagði Pétur Óskarsson, talsmaður Sólar í Straumi, eftir að ljóst varð að Hafnfirðingar hefðu hafnað stækkun álversins í Straumsvík.

Hann sagði að um stóra og erfiða ákvörðun hefði verið að ræða fyrir Hafnfirðinga og baráttan fyrir kosningarnar hefði verið hörð. Hann sagði gott að málinu væri lokið og ljóst væri að það gerðist ekkert í Hafnarfirði og morgundagurinn rynni upp eins og aðrir dagar.

Aðspurður hvort ekki hefði verið neikvætt hve lítill munur hefði orðið á fylkingunum sagði Pétur svo ekki vera. Þetta sýndi hvað ákvörðunin hefði verið erfið fyrir Hafnfirðinga. Það hefði verið búið að kynna þetta mál rosalega fyrir bæjarbúum og ákvörðunina hefði þurft að taka.

Þá taldi Pétur ekki líklegt að bærinn myndi klofna vegna þessa. Hann teldi að það myndi fenna fljótt í þá gjá sem myndast hefði á milli fylkinganna. Mjög margir væru búnir að leggja hart að sér og þau í Sól í Straumi hefðu staðið í baráttu í fimm og hálfan mánuð. Það hlyti að vera ein lengsta og strangasta kosningabarátta sem fram hefði farið hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×