Innlent

Andstæðingar með nauma forystu eftir fyrstu tölur

Talning atkvæða fer fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu.
Talning atkvæða fer fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu.

Þeir sem vilja að álver Alcan í Straumsvík verði ekki stækkað hafa forystu samkvæmt fyrstu tölum úr atkvæðagreiðslu um stækkunina sem fram fór í Hafnarfirði í dag. Búið er að telja 5950 atkvæði af 12.752 og eru 3000 andvígir stækkun álversins en 2950 með henni. Það þýðir að 50,4 prósent eru andvíg stækkun álversins en 49,6 fylgjandi henni. Alls voru 16.648 á kjörskrá en tæplega 1200 manns kusu utan kjörfundar. Kjörsókn var því 76,6 prósent.

Rannveig Rist, forstjóri Alcan, sagði á Stöð 2 við tíðindin að ef þetta yrðu úrslitin yrði verksmiðjunni líklega lokað en hún sagðist þó ekki hafa gefið upp von enda munurinn á fylkingunum lítill.

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, fagnaði því hversu góð þátttaka var í kosningunni og sagði hana sigur fyrir lýðræðið. Spurður hvort hann vildi gefa upp hvort hann hefði kosið með eða á móti álverinu sagði Lúðvík að hann hefði kosið rétt, annað vissi hann ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×