Innlent

Flugstöð við Húsavík til sölu á spottprís

Flugstöðin á Húsavíkurflugvelli er til sölu fyrir spottprís. Heimamenn vilja verja mannvirkið og eru mjög ósáttir.

Húsavíkurflugvöllur stendur í Aðaldal og hefur verið lítið notaður síðustu ár. Málningin á endurbættri flugstöð vallarins var varla þornuð þegar áætlunarflug var lagt af og síðar hætti völlurinn að gegna því hlutverki að vera varaflugvöllur fyrir flugumferð til og frá Akureyri.

Síðustu misseri hefur völlurinn haft lítið hlutverk en það gæti breyst rísi álver við Bakka. Heimamönnum svíður því að samgönguráðherra hafi nú um skeið haft heimild til að selja flugstöðina fyrir spottprís.

 

Samkvæmt heimildum fréttastofu er það flugmálayfirvöldum keppikefli að losna við rekstrarkostnað og gæti dugað að bjóða nokkur hundruð þúsund til að geta keypt flugstöðina.

 

Sveitarstjóri Norður-Þings segir að heimamenn séu staðráðnir í að grípa til varna enda gæti mikilvægi þess mikla mannvirkis sem völlurinn er aukist verulega í nálægri framtíð.

Þær ábendingar bárust frá fjármálaráðuneytinu eftir að fréttin var sýnd að það væri ekki samgönguráðherra heldur fjármálaráðherra sem tæki ákvörðun um sölu eignarinnar. Engin slík ákvörðun hefði verið tekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×