Innlent

Tjón ekki talið mikið í vatnselg við Hlemm

MYND/Stöð 2

Vatn flæddi inn í hús að Laugavegi 105 í morgun þar sem Möguleikhúsið og Náttúrufræðistofnun Íslands er til húsa. Vatnslögn í nágrenni við húsið sprakk og stíflaði öll niðuföll. Slökkvilið hefur verið að störfum í allan morgun við að dæla vatninu út. Tjónið er þó ekki talið mikið.

Slökkviliðið fékk tilkynningu um vatnsflóðið inn í húsið að Laugavegi 105 við Hlemm rétt fyrir klukkan sjö í morgun. Þá hafði vatn flætt inn í búslóðageymslu Félagsbústaða Hverfisgötumegin og í kjallarageymslu í íbúðarhúsi við hliðina á. Þá flæddi mikið vatn inn í Möguleikhúsið. Náttúrufræðisstofnun Íslands er í sama húsi en að sögn slökkviliðs sluppu húsakynni hennar við vatnstjón. Talið er að kaldavatnslögn á mótum Laugavegar og Snorrabrautar hafi gefið sig en hún er frá árinu 1909.

Árni Ómar Árnason, aðstoðarvarðstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, segir erfitt að meta tjónið en það hafi bjargað miklu að búslóðirnar í kjallaranum hafi verið á brettum. Segir hann að vatn og drulla hafi borist inn og verið um 20-30 sentímetra hátt þegar slökkvilið kom á vettvang.

Mikið vatnið flæddi inn sýningarsal Möguleikhússins en tjónið virðist vera minna en menn héldu í fyrstu. Pétur Eggerz er einn eigenda Möguleikhússins. Hann segir að leikmyndir hafi verið geymdar á öðrum stað í húsinu og svo virðist sem engar skemmdir hafi orðið á þeim stað. Mest tjón virðist liggja í þúsundum leikskráa sem verið hafi í anddyri leikhússins og farið hafi á flot.

Möguleikhúsið á von hátt í hundrað krökkum á leiksýningu í dag um eitt og sagðist Pétur vona að hægt yrði að sýna í leikhúsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×