Innlent

Fjórir piltar ákærðir fyrir að nauðga fjórtán ára stúlku

Fjórir ungir piltar eru ákærðir fyrir að hafa nauðgað fjórtán ára stúlku og var mál þeirra tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Meint hópnauðgun átti sér stað í samkvæmi í heimahúsi í Reykjavík haustið 2005.

Piltarnir fjórir eru fæddir á árunum 1988 til 89 og voru á aldrinum fimmtán til sautján ára þegar meint brot áttu sér stað. Í dag eru þeir sautján til nítján ára. Stúlkan var hins vegar fjórtán ára en hún er fædd árið 1991. Hún þekkti engan piltanna fyrir og hitti þá fyrst í partýi í heimahúsi í Reykjavík. Þar fór meint nauðgun fram og kærði stúlkan verknaðinn til lögreglu í framhaldinu.

Lögreglan í Reykjavík sendi málið til ríkissaksóknara í lok nóvember á síðasta ári, einu ári eftir að kæra barst lögreglu. Við rannsókn málsins naut lögreglan í Reykjavík aðstoðar lögreglunnar í Keflavík þar sem piltarnir höfðu allir verið búsettir á Suðurnesjum en flestir þeirra hafa í öðrum tilfellum komið við sögu lögreglu.

Ólíklegt má telja að stúlkan þurfi að koma fyrir dóm sökum ungs aldurs en þess í stað verði stuðst við framburð hennar sem tekinn var upp. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 hefur málið reynt mjög á stúlkuna en sökum ungs aldurs hennar og meintra gerenda voru Barnaverndaryfirvöld kölluð til á sínum tíma. Reiknað er með að málflutningur geti hafist í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×