Innlent

Blindir beðið eftir þjónustumiðstöð árum saman

Þekkingarmiðstöð fyrir blinda hefur enn ekki verið stofnuð, þó að nefnd um málefni blindra og sjónskertra nemenda hafi lagt það til fyrir nokkrum árum. Helgi Hjörvar sagði á Alþingi í morgun að þetta væri dæmi um einstakt aðgerðarleysi stjórnvalda. Menntamálaráðherra segir framkvæmdahóp vinna að málinu.

Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar spurði menntamálaráðherra á Alþingií morgun hvað liði stofnun þekkingarmiðstöðvar fyrir blind og sjónskert börn, sem sérstök nefnd hefði komist að niðurstöðu um að stofna árið 2004. Hann sagði að um eitt hundrað börn á öllum skólastigum þyrftu á þessari þjónustu að halda en nú væri einn kennsluráðgjafi sem sæi um að aðstoða þennan hóp í öllu skólakerfinu, sem allir sæju að væri langt í frá viðunandi.

Helgi sagði foreldra flýja frá Íslandi til annarra Norðurlanda og Evrópu, vegna skorts á þjónustu í íslenska skólakerfinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði marga aðila þurfa að koma að málinu með menntamálaráðuneytinu, eins og sveitarfélög og heilbrigðisráðuneyti sem hafi sýnt vilja til að leysa málið.

"Þess vegna greip ég tækifærið og ákvað að í samráði m.a. við Blindrafélagið, að skipa ekki bara eina nefndina enn, heldur framkvæmdahóp sem hefur það hlutverk að setja hlutina í farveg þannig að þeir komist til framkvæmda," sagði menntama´laráðherra.

Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður Vinstri grænna sagði ríkisstjórnina líka bregðast heyrnarlausum. Frumvarp um réttarstöðu þeirra og táknmálsins kæmist ekki út úr nefnd og til afgreiðslu á þinginu.

"Eftir að vandinn hefur legið fyrir árum saman þá var skipaður starfshópur. Og starfshópurinn vann og hann skilaði niðurstöðu og það leið eitt ár og annað ár og það er að líða þriðjá árið - og þá gerðist það: það var skipaður annar starfshópur. Og eftir tvo mánuði er kjörtímabilið búið," sagði Helgi hjörvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×