Innlent

Sérfræðingar gagnrýna auðlindaákvæði

Stjórnskipunarnefndin hefur ekki enn afgreitt frumvarp um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Nefndin sat á rökstólum frá því laust eftir átta i morgun og lauk störfum skömmu fyrir þingfund. Sérfræðingar sem komið hafa fyrir nefndina hafa verið afar gagnrýnir á ákvæðið.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir skýrast á næstu klukkustundum hvert framhaldið verði, ólíklegt sé að frumvarpið fari í aðra umræðu í þinginu í dag eins og málin standa núna. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að ekki hafi verið rætt í nefndinni að taka út hugtakið þjóðareign úr ákvæðinu en slíkt hefði þó komið til tals annars staðar. Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir fullan vilja til að ljúka málinu fyrir þinglok.

Stjórnarandstaðan fór fram á það fyrir hádegi að hún yrði kölluð til samráðsfundar vegna þingloka. Áttatíu mál liggja fyrir þinginu í dag og sagði stjórnarandstaðan að tæpt væri að það næðist að afgreiða þau öll í dag. Lítill tími væri einnig fyrir stjórnskipunarnefnd til að ljúka störfum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×