Innlent

Þurfum ekki að hlaupa og kaupa málningu

MYND/GVA

„Við höfum staðið vaktina á hverju sem gengur og við þurfum því ekki að hlaupa út í búð og kaupa málningu þegar vindurinn hefur snúist og stóriðjustefnan er orðin óvinsæl," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Hann benti á að jafnvel sjálfstæðisfálkinn væri orðinn að kamelljóni og skipti litum og að Framsókn reyndi að dusta af sér álrykið og klæða sig í grænan búning.

Steingrímur sagði tímabært að staldra við í stóriðjumálum og láta náttúruna njóta griða í nokkur ár þannig að hagkrefi og vinnumarkaður fengju tíma til að jafna sig. Það væri ekki stöðnun heldur ávísun á heilbrigt efnahagslíf.

Steingrímur gerði eins og aðrir kosningarnar að umtalsefni og sagði að kosið yrði um það hvers konar samfélag menn vildu að þróaðist á komandi árum. Ef menn vildu norræna velferðarsamfélagið þá kysu menn ekki ríkisstjórnina sem hefði keyrt í þveröfuga átt. Aldraðir og öryrkjar hefðu borið skarðan hlut frá borði og það væri verkefni nýrrar ríkisstjórnar að laga það. Sagði hann Vinstri - græn kvenfrelsisflokk sem berðist fyrir jafnrétti kynjanna og gegn klámi og mansali.

Þá sagði hann landsbyggðina hafa mætt tómlæti og áhugaleysi hjá ríkisstjórninni og ríkisstjórnin hefði svikist um í málaflokknum. Þá þyrfti að verja menninguna og endurheimta Ríkisútvarpið.

Enn fremur sagði Steingrímur að það væri deginum ljósara að ríkisstjórnin væri komin af fótum fram og reyndi að framlengja líf sitt. Nýjasti leiksoppurrinn væri stjórnarskráin. Svo væri það gamli hræðsluáróðurinn gagnvart vinstri flokkunum á sama tíma verðbólga væri hér mikil og sett hefðu verið Íslandsmet í viðskiptahalla og erlendum skuldum. Þá sakaði hann stjórnina um að kasta steinum úr glerhúsi með því að segja að stjórnarandstaðan gæti ekki unnið saman.

Steingrímur sagði að eitt væri mikilvægt og það væri að það yrðu engar breytingar nema það yrðu stjórnaskipti. Ríkisstjórnarflokkarinir héldu áfram samstarfi sínu fengju þeir til þess umboð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×