Innlent

Eldhúsdagur á Alþingi í beinni á Vísi

MYND/GVA

Hinn hefðbundni eldhúsdagur eða almennar stjórnmálaumræður verða á Alþingi í kvöld eins og venjan er í lok þings. Sýnt verður beint frá umræðunum á Vísi en þær hefjast klukkann 19.50.

Umræðurnar fara þannig fram að hver þingflokkur fær 22 mínútur til umráða sem skiptast í þrjár umferðir, 10 mínútur í fyrstu umferð og 6 mínútur í annarri og þriðju umferð.

Samfylkingin er fyrst á mælendaskrá, þar á eftir Sjálfstæðisflokkurinn, svo Vinstri hreyfingin - grænt framboð, þar á eftir Framsóknarflokkurinn og loks Frjálslyndi flokkurinn.

Fyrir Samfylkinguna talar í fyrstu umferð Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður flokksins, í annarri umferð Katrín Júlíusdóttir og Björgvin G. Sigurðsson í þriðju umferð.

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn talar í fyrstu umferð Geir H. Haarde forsætisráðherra, í annarri Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra í þeirri þriðju.

Ræðumaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs verður í fyrstu umferð Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, í annarri umferð Kolbrún Halldórsdóttir en Ögmundur Jónasson í þriðju umferð.

Fyrir Framsóknarflokk tala Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra í fyrstu umferð en ungu þingmennirnir Sæunn Stefánsdóttir og Birkir J. Jónsson tala annarri og þriðju umferð.

Fyrir Frjálslynda flokkinn talar í fyrstu umferð Magnús Þór Hafsteinsson, þá Kristinn H. Gunnarsson og í þriðju umferð tala Sigurjón Þórðarson og Valdimar L. Friðriksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×