Innlent

Á þriðja hundrað ábendinga til Neytendastofu

Neytendastofu hefur borist á þriðja hundrað ábendinga frá almenningi vegna veitingastaða og mötuneyta í Reykjavík, sem ekki hafa lækkað verð eftir skattalagabreytingar 1. mars. Veitingamenn sem hyggjast ekki lækka verð á sínum stöðum bera því við að birgjar hafi hækkað verð um áramótin

Frá því að skattalækkanir tóku gildi 1.mars síðastliðinn hafa matvöruverslanir keppst við að lækka verð á matvöru. Gagnrýnt hefur verið að veitingastaðir og mötuneyti hafi ekki lækkað verð að sama skapi. Þrátt fyrir fjölda veitingahúsa sem hafa lækkað verð á veitingastöðum eru nokkrir staðir sem ætla ekki að lækka verð.



Valdimar Hilmarsson einn eigenda Hressingarskálans segir að þar verði verð ekki lækkað. Endurgreiðslukerfið sem hafi verið lagt niður hafi gert það að verkum að staðurinn fái ekki endurgreiddan matarskatt sem var um 10,5 %. Hann segir að staðurinn hafi verið með óbreyttan matseðil í tvö og hálft ár og því verði ekki breytt. Valdimar sagði að staðurinn hefði ekki svigrúm til að lækka verðið því birgjar hefðu hækkað verðið til þeirra. Hann segir engan viðskiptavin staðarins hafa kvartað vegna verðsins og ef til þess kæmi þá tækju þeir á því.



Vegamót og Kaffi Óliver hyggjast ekki lækka verð hjá sér og taka í sama streng og eigendur Hressingarskálans. Þá hefur Barinn til að mynda lækkað verð á matseðli um 10 % og Kaffi Sólon lækkað verð um 6 %.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×