Innlent

Dæmdur fyrir vörslu 11 þúsund barnaklámsmynda

MYND/E.Ól

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt karlmann í níu mánaða fangelsi, þar af sex skilorðsbundna, fyrir vörslu yfir 11 þúsund ljósmynda af barnaklámi og tíu hreyfimynda.

Um 5800 ljósmyndanna höfðu verið útprentaðar, 4300 fundust í tölvu heima hjá manninum ásamt hreyfimyndunum tíu og um 1200 myndir fundust í tölvu á vinnustað mannsins. Hafði maðurinn safnað myndunum frá árinu 1998 en lögregla gerði húsleit hjá honum og á vinnustað hans í október í fyrra.

Maðurinn játaði skýlaust á sig brotin og var litið til þess við ákvörðun refsingar. Jafnframt var horft til þess að hann var með hreint sakavottorð og hafði leitað til sálfræðings vegna sjúklegrar klámfíknar.

Það varð honum hins vegar til refsiþyngingar hversu margar barnaklámsmyndirnar voru en mikill hluti þeirra var af grófasta tagi eftir því sem segir í dómi. Þá var horft til þess að hluta efnisins var maðurinn með í tölvu í skóla þar sem hann kenndi, en með því var hann talinn hafa brotið gróflega gegn því trausti sem hann naut sem kennari við skólann.

Þótti brot hans því stórfellt og var hann dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna, sem fyrr segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×