Innlent

Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal að komast í gang

Byrjað er að prufukeyra vélar nýju kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal og er stefnt að því að framleiðsla hefjist þar í næstu viku.

Sanddæluskip hóf reyndar í fyrra að dæla kalkþörungaseti af botni Arnarfjarðar. Hluti kalkþörunganna var fluttur út til vinnslu á Írlandi, þar sem írskir eigendur kalkþörungafélagsins áttu erfitt með að anna eftirspurn. Telja má uppbyggingu verksmiðjunnar á Bíldudal eitt það jákvæðasta sem gerst hefur í atvinnumálum Vestfjarða um langt skeið. Stefnt er að því að þarna verði um tíu manns komnir í vinnu þegar verksmiðjan verður komin í fullan rekstur á næsta ári, að sögn Guðmundar Valgeirs Magnússonar verksmiðjustjóra, en auk þess vonast heimamenn til þess að fimm til tíu afleidd störf skapist. Í síðustu viku voru helstu tæki gangsett í fyrsta sinn og vonast menn til að framleiðsla geti hafist eftir helgi. Formleg opnunarhátíð verður þó ekki fyrr en í lok aprílmánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×