Innlent

Vilja kanna riftun vegna Heiðmerkur

MYND/Daníel

Vinstri-grænir í borgarstjórn vilja að borgarstjóri athugi með að rifta samningi borgarinnar og Kópavogs um lagningu vatnsleiðslu um Heiðmörk.

Málefni Heiðmerkur komu til umræðu á fundi borgarráðs í morgun að beiðni Árna Þórs Sigurðssonar, fulltrúa Vinstri grænna. Hann lagði fram tillögu um að kanna riftun í ljósi þess „ að Kópavogsbær hefur ráðist í framkvæmdir í Heiðmörk án þess að Reykjavíkurborg hafi gefið út framkvæmdaleyfi, Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur kært Kópavogsbæ vegna framkvæmdanna og að viðræður borgarinnar og Kópavogs um viðunandi lausn hafa ekki skilað árangri," eins og segir í bókuninni.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað. Vinstri-grænir vilja láta kanna, hvort unnt sé að rifta umræddum samningi með það fyrir augum að loka þeim sárum sem þegar eru orðin á viðkvæmu svæði í Heiðmörk, meðal annars innan vatnsverndarsvæðis, og bæta þau náttúruspjöll sem unnin hafa verið. Vinstri-grænir telja mikilvægt að kanna réttarstöðu borgarinnar í þessu sambandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×