Innlent

Unnið framundir morgun við að breyta verðmerkingum

Víða í verslunum voru starfsmenn að vinna framundir morgun við að breyta verðmerkingum vegna lækkunar á virðisaukaskatti og vörugjöldum í dag. Matvöruverð lækkar í landinu en einnig nær verðlækkunin til veitingahúsa, fjölmiðla og gistihúsa svo eitthvað sé nefnt.

Meginbreytingin snýr að matvörunni þar sem vaskurinn lækkar í 7% en var 14% á flestum vöruflokkum áður en á sumum 24,5%. Verð á matvörunni við kassann á að lækka um sex til fjórtán prósent.

Í flestum matvöruverslunum voru menn að vinna framá nótt við að breyta verðmerkingum og búðarkössum til samræmis við lækkunina. Eysteinn Helgason, framkvæmdastjóri innkaupasviðs Kaupsáss sem rekur meðal annars Nóatún og 11-11 verslanirnar segir að þetta hafi gengið vel.

Hann vill þó benda neytendum á að lækkun á vörugjaldi muni skila sér í áföngum en það lækkar á nýjar innfluttar birgðir og nýja framleiðslu þar sem þar á við. Vörugjald verður framvegis ekki innheimt á gosi og ávaxtasöfum til dæmis en þar lögðust áður átta krónur á hvern lítra. Vörugjald á kaffi fellur einnig niður.

Það á fleira að lækka í verði í dag en matvaran og neysluvörurnar í verslunum því vaskur lækkar á veitingahúsum, sem menn eiga að sjá nú þegar nú í hádeginu þegar reikningurinn kemur á borðið. Gisting á gistihúsum lækkar einnig í verði svo og áskrift á dagblöð og aðra fjölmiðla, verð á bókum, blöðum og tímaritum. Veggjald í Hvalfjarðargöng lækkar einnig auk verðs á rafmagni til húshitunar.

Neytendur munu því verða varir við þessar lækkanir víða í samfélaginu í dag og á næstu dögum. Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands hafa hvatt þá til þess að halda vöku sinni og tryggja að staðið sé við þessa lækkun á öllum stöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×