Innlent

Pétur Blöndal biðst afsökunar á ummælum

Þingmenn gagnrýndu Pétur H. Blöndal alþingismann harðlega í þinginu í morgun fyrir ummæli um Þórarinn Tyrfingsson, yfirlækni og formann SÁÁ í umræðum um stöðu viðræðna um nýjan þjónustusamning samtakanna við ríkið. Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, gerði einnig athugasemd sagði að þingmenn ættu að gæta orða sinna.

Þingmenn gagnrýndu að Pétur skyldi líkja saman Byrginu og SÁÁ þegar hann sagði að hjá SÁÁ væri einn og sami maðurinn yfirlæknir, formaður framkvæmdastjórnar og stjórnarformaður og uppfylli þannig öll sömu skilyrði og voru hjá Byrginu. Þeir sem gerðu samning við ríkið, eins og SÁÁ, megi ekki taka sér fjárveitingavald með því að krefjast meira en fjárlög gera ráð fyrir og víkka út reksturinn, eins og gert hafi verið. Það þyrfti að gera kröfur til þeirra sem geri samninga við ríkið.

Steingrímur J Sigfússon formaður Vinstri Grænna sagði samlíkingu Péturs Blöndal algerlega út úr öllu korti við þær aðstæður sem nú væru uppi. Hann vildi að þingforseti stöðvaði það að ræðustóll Alþingis væri notaður til að vega að fjarstöddum mönnum sem ekki gætu borið hönd fyrir höfuð sér og hvetti Pétur til að draga ummælin til baka.

Össur Skarphéðinsson sagði að þingforseti hefði átt að víta þingmanninn sem leyfði sér að draga samasemmerki milli forstöðumanns stofnunar sem hefur orðið uppvís að meintum glæpum og hins ágæta forstöðumanns SÁÁ með sunnsöfnuði og orðavaðli af þessu tagi. Össur krafðist þess að Pétur bæðist afsökunar.

Pétur sagðist hafa verið að benda á galla sem hann teldi vera í stjórnskipun SÁÁ og því miður hafi sér orðið á að bera það saman við Byrgið, og hafi hann meitt einhvern þá vildi hann endilega biðjast afsökunar á því.

Það var Valdimar L. Friðriksson sem hóf við upphaf þingfundar umræðu um fjárhagsvanda SÁÁ. Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra kvaðst öll af vilja gerð til að endurnýja þjónustusamning við samtökin en benti á að framlög til þeirra hefðu aukist verulega umfram verðlagsþróun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×