Innlent

Engin leynd yfir reikningum

Jakob Möller, lögfræðingur Tryggva Jónssonar, og Linda Jóhannsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs, ræða saman fram á gangi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Jakob Möller, lögfræðingur Tryggva Jónssonar, og Linda Jóhannsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs, ræða saman fram á gangi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. MYND/Gunnar

Lokið var að yfirheyra Lindu Jóhannsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra Baugs, í Héraðsdómi Reykjavíkur um hádegisbil. Linda sagði enga sérstaka leynd hafa verið yfir reikningum sem bárust frá Nordica til Baugs. Tryggvi hefði yfirleitt samþykkt reikningana og hún vitað að þeir hafi verið í tengslum við Vöruhús Jóns Geralds Sullenberger. Áður hafði Jón Gerald lýst því yfir að mánaðarlegar greiðslur frá Baugi til Nordica hafi verið vegna reksturs skemmtibáta í Miami í Bandaríkjunum.

Linda var spurð út í einstaka færslur sem tengjast lánveitingum Baugs til Gaums og fleiri. Linda sagði Baug ekki hafa verið í lánastarfsemi en ekki geta sagt til um einstaka færslur í bókhaldi. Linda var einnig spurð út í 19. lið ákærunnar um meintan fjárdrátt Tryggva Jónssonar frá Baugi. Tryggvi hafði sérstakt kort frá Nordica sem honum er gert að hafa notað til að draga að sér fé. Linda sagðist lítið vita um kortið enda hafi hún ekki talið það koma sér við.

Linda sagði Jón Ásgeir aldrei hafa gefið fyrirmæli um hvernig færa ætti bókhald Baugs. Hún hafi hins vegar ítrekað fundað með Tryggva út af bókhaldinu. Sumar ákvarðanir varðandi bókhaldið hafi legið hjá henni en aðrar hafi hún rætt við Tryggva.

Þórður Bogason, ritari stjórnar Baugs, var yfirheyrður á eftir Lindu. Þórður kom inn í stjórnina árið 2000. Þórður var sérstaklega spurður út í bréf sem hann ritaði eftir fund Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs, og Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, í Lundúnum í janúar 2001. Í bréfinu er kallað eftir upplýsingum um rekstur félagsins en Þórður sagði innri endurskoðun hafa farið í gang í fyrirtækinu eftir fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×