Innlent

Segir ekki satt að tilgangslaust sé að kæra lögreglu vegna harðræðis

MYND/Róbert

Embætti ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem gerð er athugasemd við fréttaflutning Stöðvar 2 síðustu daga um meint harðræði lögreglu.

Segir embættið ekki satt þar sem haft er eftir ónefndum lögmönnum að það þjóni ekki tilgangi að kæra lögreglu vegna harðræðis og að slík mál séu nánast sjálfkrafa felld niður. Kærur sem varði meint brot lögreglumanna séu sendar ríkissaksóknara til rannsóknar og að ríkislögreglustjóri meti hvort víkja beri kærðum lögreglumönnum frá störfum. Á undanförnum árum hafi margoft reynt á þessa málsmeðferð hjá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra.

Þá hafi embætti ríkislögreglustjóra sett lögreglumönnum siðareglur, vinnu- og verklagsreglur þar sem réttar starfsaðferðir lögreglu eru útfærðar með nákvæmum hætti. Mjög mikil eftirfylgni hafi verið með því að lögregla sinni störfum sínum af fagmennsku.

Embættið segir þá staðreynd að ríkissaksóknari felli niður flestar kærur á hendur lögreglumönnum einfaldlega staðfesta að lögregla hér á landi vinni faglega og í samræmi við lög. Athugasemdir um að ómálefnaleg sjónarmið séu til staðar við rannsókn mála sem varða meint brot lögreglumanna í starfi séu úr lausu lofti gripnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×