Innlent

Vill láta flokka kaldastríðsskjöl úti á landi

Öll skjöl sem varða öryggismál Íslands á árunum 1945 til 1991 skulu afhent Þjóðskjalasafni Íslands, sem á að flokka þau og vista í sérstöku öryggismálasafni. Talið er að það muni taka um fjögur ár að flokka skjölin og gera þau aðgengileg fræðimönnum og almenningi og hefur menntamálaráðherra ákveðið að það skuli m.a. gert á Ísafirði og Húsavík.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um Þjóðskjalasafn Íslands á Alþingi á mánudag. Það er um stofnun sérstaks öryggismálasafns innan safnsins sem fari með skjöl um öryggismál frá árinu 1945 til ársins 1991 og aðgang fræðimanna og annarra að þeim.

Ráðherra segir að það eigi eftir að flokka mikið magn skjala. Í utanríkisráðuneytinu einu séu skjölin um 800 hillumetrar. Þá sé ógrynni skjala frá Pósti og síma en alls muni taka þrjú til fjögur ár að flokka öll skjölin. Héraðsbókasöfnin á Ísafirði og Húsavík munu koma að flokkun skjalanna.

Menntamálaráðherra telur mikilvægt að vinna verkið vel en að fræðimenn og aðrir sem frumvarpið gerir ráð fyrir að hafi aðgang að þessum skjölum, fái þann aðgang sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×