Innlent

Telja að verk eftir Kjarval hækki í verði eftir söluna í gær

Málverkið Hvítasunnudagur eftir Kjarval var slegið 1,3 milljónir danskra króna í gær en kaupandinn er Íslendingur sem vill ekki láta nafns síns getið. Listmunasalar segja mál til komið að góð verk eftir Kjarval seljist almennt við hærra verði en verið hefur.

Kjarval hafi unnið fleiri verk en allir hinir gömlu meistaraarnir til samans og verk hans séu þar af leiðandi misjöfn. Þau bestu muni hiklaust hækka í verði á næstu árum og salan í gær ýti undir þá þróun.

Kaupandi Kjarvalsverksins í gær greiddi samtals um 25 milljónir króna fyrir verkið. Til samanburðar má nefna að verk eftir Jón Stefánsson var nýverið keypt á 8 milljónir króna sem þótti mikið og eins voru 12 milljónir nýlega boðnar í verk eftir Gunnlaug Scheving en boðinu var hafnað.

Þá er vert að rifja upp í þessu efni að Listasafn Íslands keypti verkið Gullfjöll eftir Svavar Guðnason fyrir á fjórðu milljón króna fyrir nærfellt tuttugu árum sem þá sló öll met í listaverkakaupum hérlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×