Innlent

Reiknað með að svifryk verði undir heilsuverndarmörkum í dag

Svifryksmengun í Reykjavík reyndist rétt undir heilsuverndarmörkum í gær samkvæmt mælingum umhverfissviðs Reykjavíkurborgar og reiknað er með að svo verði einnig í dag þótt brugðið geti til beggja vona.

Mengunin reyndist ríflega 46 míkrógrömm á rúmmetra við mælistöðina við Grensásveg í gær en heilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm. Á vef umhverfissviðs segir að í dag séu kjöraðstæður fyrir svifryksmengun, kalt og logn, en mengunin verði líklega undir mörkunum, meðal annars vegna rykbindingar helstu umferðargatna í Reykjavík með sérstakri magnesíumklóríðblöndu.

Hefur svifryksmengunin mælst um 30 míkrógrömm á rúmmetra í morgun og spáir Anna Rósa Böðvarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá mengunarvörum Umhverfissviðs, því að dagurinn í dag verði undir heilsuverndarmörkum en að brugðið geti til beggja vona.

Ráðleggur umhverfissvið fólki að vinna gegn svifryki með því að hvíla bifreiðar á nagladekkjum, samnýta bíla, nota strætisvagna, hjóla eða ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×