Innlent

Sakfelld fyrir árás á leigubílstjóra

Kona á sextugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmd til að greiða 180 þúsund krónur í sekt vegna líkamsárásar á leigubílstjóra í mars í fyrra. Konan var jafnframt dæmd til að greiða leigubílstjóranum, sem er kona, 100 þúsund krónur í miskabætur.

Konan var ákærð fyrir að hafa rifið í hár kynsystur sinnar sem ók leigubílnum og klórað hana í andliti en þær höfðu deilt vegna þess að leigubílstjórinn vildi ekki lækka í útvarpinu.

Ákærða neitaði að hafa veitt leigubílstjóranum áverka í andliti en viðurkenndi að hafa hnippt í öxl bílstjórans og hugsanlega þá rifið í hár hans. Út frá framburði leigubílstjórans sem fékk að hluta til stuðning í vitnisburði manns sem var með hinni ákærðu í bílnum þótti dómnum hins vegar sannað að konan hefði rifið í hár leigubílstjórans og klórað hann í andlitið. Þótt það kynni að vera að leigubílstjórinn hefði ekki orðið við tilmælum um að lækka tónlist þætti það á engan hátt réttlæta háttsemi ákærðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×