Innlent

Tími ástarjátninga á Alþingi

MYND/GVA

Tími ástarjátninga var á alþingi í dag þar sem heilbrigðisráðherra sakaði Vinstri - græna og Samfylkinguna um að sleikja upp Sjálfstæðisflokinn í von um að komast í ríkisstjórn.

Það var Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem hóf umræðuna og þakkaði Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri - grænna, fyrir hlý orð í garð Framsóknarflokksins í ræðu sinni á landsfundi. Þar sagði Steingrímur að Vinstri - græn og Framsóknarflokkurinn væru einu flokkarnir sem myndu stuðla að auknu jafnfrétti í stjórnmálunum miðað við röðun efstu manna á lista fyrir þingkosningar í vor. Benti Guðjón Ólafur á að Framsókn væri eini flokkurinn sem hefði á að skipa þremur konum og þremur körlum í forystusætum í kjördæmunum sex.

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra tók þátt í umræðunni og sakaði meðal annars Vinstri - græna og Samfylkinguna um að sleikja sig upp við Sjálfstæðisflokkinn í von um að komast í ríkisstjórn. Uppskar hún mikinn hlátur í þingssal við þessi orð sín. Benti Siv enn fremur á að bæði Vinstri - græn og Samfylkingin hefðu lýst því yfir að þau myndu stuðla að jafnrétti í ríkisstjórn með jöfnu hlutfalli kynja en spurði hvernig það yrði gert þegar tvær konur leiddu lista hjá Vinstri - grænum og ein hjá Samfylkingunni. Sagði hún Framsóknarflokkinn eina trúverðuga flokkinn í þessum efnum þar sem hann hefði þrjár konur og þrjá karla í forystusætum.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sagði gaman að geta glatt framsóknarmenn og ítrekaði að tveir flokkar myndu sjá til þess að kynjahlutföll yrðu jöfn á Alþingi, Framsókn og Vinstri - græn. Hann benti enn fremur á að þegar litið væri til fyrsta sætisins á listunum hefði Framsóknarflokkurinn vinninginn en í sætunum þar á eftir væru fleiri konur hjá Vinstri - grænum en Framsókn. Sagði hann því líklegast best að Framsókn fengi einn mann í hverju kjördæmi.

Þá sagði Steingrímur það stórkostlega gamansemi hjá heilbrigðisráðherra að tala um að Vinstri - græn og Samfylking hugsuðu hlýlega til Sjálfstæðisflokksins. Vísaði hann þar til áralangs samstarfs Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkinginarinnar, kvaddi sér hljóðs eftir þetta og sagði að úr því að upp væri runninn tími ástarjátninga á þingi þá vildi hann upplýsa að hann hefði alltaf verið hrifinn af heilbrigðisráðherra. Uppskar hann mikil hlátrasköll við þessa yfirlýsingu. Sagðist hann hefðu kosið Siv formann Framsóknarflokksins ef hann hefði haft tækifæri til þess.

Enn fremur sagði hann Steingrím J. Sigfússon fullbjartsýnan að halda að framsóknarmenn næðu inn einum þingmann í hverju kjördæmi. Kannanir bentu til annars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×