Innlent

Kúbískt verk Kjarvals boðið upp í dag

Málverkið Hvítasunnudagur eftir Jóhannes Kjarval verður boðið upp hjá danska listaverkasalanum Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn í dag. Búist er við að verkið verði selt á eina milljón til fimm milljónir króna.

Verkið kom nýlega í leitirnar, en Kjarval málaði það árið 1917 og gaf það dönskum kaupsýslumannshjónum sem hann leigði hjá á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Hrafnhildur Schram listfræðingur segir að búast megi við að listaverk eftir gömlu íslensku meistaranna komi í leitirnar á næstu árum og þá sérstaklega í Danmörku.

Mörg þessara verka, eins og eftir Kjarval og Júlíönu Sveinsdóttur, sem bjó lengi í Danmörku, séu nú komin í eigu annararr og jafnvel þriðju kynslóðar frá upprunalegu eigendunum, sem hafi ekki tilfinningatengsl við listamennina og því reiðubúnir að selja.

Uppboð Bruun Rasmussen hefst klukkan eitt en reiknað er með að verk Kjarvals verði boðið upp um miðjan dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×