Innlent

Hitafundur hjá Framsókn á Selfossi

Skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins, Helga Sigrún Harðardóttir, verður í þriðja sæti lista flokksins í Suðurkjördæmi. Það var samþykkt á fjölmennum hitafundi á Hótel Selfossi í dag.

Loft var lævi blandið á Hótel Selfossi í dag þar fjölmargir létu í ljósi óánægju sína með tillögu kjörstjórnar um að fá Helgu Sigrúnu inn í 3. sætið sem var tómt eftir að Hjálmar Árnason ákvað að hætta. Hópur framsóknarmanna vildi að listinn færðist einfaldlega upp og Eygló Harðardóttir sem lenti í fjórða sæti myndi flytjast upp í það þriðja. Bjarni Harðarson, sem er í 2. sæti, að um hundrað manns væru í salnum og líklega um 100 skoðanir. Fyrir sumum snýst þetta um þúfupólitík, aðra aðferðarfræði og pólitískan frama, segir Bjarni. Aðspurður sagði hann það vissulega lýðræðislegt að taka inn manneskju sem ekki hefði tekið þátt í prófkjöri. Algengasta aðferðin við svona aðstæður væri einmitt að kippa inn nýrri manneskju og auk þess hafi Eygló fengið bindandi kosningu í fjórða sætið. Og auðvitað snýst þetta líka um að Suðurnesjamaðurinn Hjálmar hættir og inn vilja menn konu sem er fædd og uppalin á Suðurnesjum - þar sem fjörutíu prósent atkvæða í kjördæminu búa. Formaður kjörstjórnar segir þetta sigurstranglegasta listann.

Fundurinn dróst fram eftir degi en eftir atkvæðagreiðslu kom í ljós að tillaga stjórnar var samþykkt með meirihluta atkvæða. Niðurstaðan: 68 samþykktu tillögu kjörstjórnar, 37 sögðu nei. Auðir og ógildir seðlar voru fjórir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×