Erlent

Lögregla og lögmenn takast á í Pakistan

Pakistanskir lögmenn mótmæla brottvikningu dómarans í Lahore í dag.
Pakistanskir lögmenn mótmæla brottvikningu dómarans í Lahore í dag. MYND/AP

Til harðra átaka kom í dag milli lögreglumanna og lögfræðinga í borginni Lahore í Pakistan þar sem lögmennirnir mótmæltu brottvikningu eins af hæstaréttardómurum landsins úr embætti.

Eftir því sem fram kemur á vef BBC slösuðust á þriðja tug manns í átökunum þar sem lögmennirnir beittu steinum en lögregla steinum, táragasi og kylfum.

Pervez Musharraf, forseti Pakistans, vék í síðustu viku Iftikhar Muhammad Chaudhry hæstaréttardómara úr embætti fyrir að hafa misnotað vald sitt. Stuðningsmenn dómarans segja að með brottvikningunni sé verið að múlbinda dómskerfið en Chaudhry er þekktur fyrir sjálfstæði og fyrir að standa uppi í hárinu á yfirvöldum. Til átakanna kom í dag þegar lögregla reyndi að koma í veg fyrir að lögmennirni færu í mótmælagöngu.

En það er ekki bara brottvikning Chaudhrys sem hefur valdið reiði í samfélaginu. Lögreglumenn urðu uppvísir að því að ráðast inn á sjónvarpsstöð í höfuðborginni Íslamabad og ganga þar berserksgang þar sem stöðin neitaði á láta undan þrýstingi stjórnvalda í umfjöllun um óeirðir í tengslum við brottvikningu Chaudrys sem áttu sér stað í Íslamabad í gær. 14 lögreglumönnum var vikið úr starfi fyrir þetta uppátæki og hefur Musharraf forseti beðist afsökunar á rassíunni.

Ákæra á hendur Chaudry hefur ekki verið birt opinberlega en hann segist munu takast á við stjórnvöld í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×