Innlent

Eyborg á leið til Möltu með laumufarþega

MYND/Skip.is/Guðmundur St. Valdimarsson

Togarinn Eyborg frá Hrísey er nú á leið til Möltu með 21 laumufarþega frá Afríku sem fundust í gærmorgun í þremur flotkvíum sem torgarinn dró á Miðjarðarhafi. Skipstjóri togarans er íslenskur en auk hans eru tveir Rúmenar og sex Indónesíumenn í áhöfninni.

Einn úr hópi laumufarþega, eþíópísk kona, mun vera látin en öðrum heilsast vel. Um er að ræða 17 Eþíópíumenn, þrjá frá Darfur í Súdan og einn Nígeríumann. Útgerðin hafði samband við utanríkisráðuneytið sem bað áhöfnina um að koma fólkinu strax í björgunarbáta og taka það svo um borð í birtingu.

Þá hefur ráðuneytið tilkynnt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um málið, sem hefur haft samband við svæðisskrifstofur á Möltu og Ítalíu, en talið er að fólkið hafi ætlað að reyna að komast þangað.

Birgir Rafn Sigurjónsson, framkvæmdastjóri útgerðarinnar Borgar í Hrísey, sem á skipið, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×