Innlent

Mynd Valdísar Óskarsdóttur fer í alþjóðlega dreifingu

Samningar hafa náðst á kvikmyndahátíðinni í Cannes um alþjóðlega dreifingu á íslensku gamanmyndinni Sveitabrúðkaup, eða "Country Wedding". Myndin, sem er í leikstjórn Valdísar Óskarsdóttur, skartar meðlimum Vesturports í aðalhlutverkum, þeim Gísla Erni Garðarssyni, Nínu Dögg Filippusdóttur, Ingvari S. Sigurðssyni og Birni Hlyni Haraldssyni.

 

Þetta kemur fram í vefsíðunni screendaily.com. Valdís, sem er betur þekkt sem einn fremsti klippari kvikmyndabransans sest nú í fyrsta sinn í leikstjórastólinn og standa tökur yfir á Snæfellsnesi. Myndin mun vera vegamynd og fjallar hún um hóp fólks sem er á leið í rútu til þess að vera viðstödd brúðkaup í lítilli sveitakirkju. Það er dreifingafyrirtækið Fortissimo Films sem hefur fest sér réttinn að myndinni um allan heim, að Skandinavíu undanskilinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×