Innlent

Fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ölvunarakstur

MYND/IA

Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ölvunarakstur og fyrir að stefna lífi lögregluþjóna og annarra í hættu. Þá var maðurinn sviptur ökuréttindum í átján mánuði og gert að greiða 150 þúsund krónur í sekt.

Maðurinn var handtekinn á heimili sínu í september á síðasta ári. Hafði hann nokkrum klukkustundum áður keyrt á miklum hraða um slysavettvang við Miklubraut og hunsað með því fyrirmæli lögreglu um lokun vegar. Með athæfi sínu stofnaði maðurinn lífi og heilsu þriggja lögreglumanna, eins slökkviliðsmanns og hjálparliða í hættu en þeir náðu naumlega að forða sér frá bifreið hans.

Þegar lögreglan handtók manninn á heimili hans var hann nokkuð ölvaður. Viðurkenndi hann að hafa ekið óvarlega um slysavettvang en sagðist ekki hafa byrjað drekka fyrr en eftir að hann var kominn heim.

Blóðsýni sem tekin voru af manninum þóttu hins vegar sanna að hann hafi verið ölvaður þegar hann ók bíl sínum fyrr um kvöldið.

Maðurinn hefur áður hlotið þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir þjófnað og gripdeild. Með sakfellingunni rauf hann umrætt skilorð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×