Innlent

Geir og Ingibjörg funda í Ráðherrabústaðnum

MYND/Pjetur

Fyrsti fundur Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, um myndun ríkisstjórnar hófst í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu klukkan tvö. Ingibjörg segist ekki gera mikið með tilboð Vinstri grænna og Framsóknarflokksins um forsætisráðherrastól.

Ekki er vitað hversu lengi fundurinn mun standa en formennirnir funda einir. Er þetta fyrsti formlegi fundur þeirra frá því flokkarnir ákváðu að ganga til viðræðna um stjórnarmyndum.

Geir H. Haarde fékk umboð til stjórnarmyndunar frá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í morgun.

Geir mætti fyrstur á fundinn en Ingibjörg kom gangandi í góða veðrinu, væntanlega frá heimili sínu í Vesturbænum. Sagðist hún ekki gera mikið með tilboð Vinstri grænna og Framsóknarflokksins um forsætisráðherrastólinn á þessari stundu. Henni fyndist eins og tilboðið væri sett fram til þess að lokka hana út úr viðræðum við sjálfstæðismenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×