Innlent

Óttast að skolp leki út í Varmá

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/GVA

Til greina kemur að endurskipuleggja að hluta lagnaframkvæmdir í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ. Þetta var niðurstaða fundar skipulagsyfirvalda í Mosfellsbæ með fulltrúum verktaka og eins íbúa á svæðinu. Hafa menn áhyggjur af því að verið sé að leggja skolplagnir of nálægt bökkum Varmá.

„Ég vildi bara reyna aðra nálgun í málinu og athuga hvort ekki væri hægt að fá það út úr þeim ógöngum sem það er komið í," sagði Jóhannes Bjarni Eðvarðsson, íbúi við Álafosskvosina í Mosfellsbæ, í samtali við Vísi. „Málið er nú í ákveðnum ferli sem ég vona að verði öllum til framdráttar."

Vinna við hluta af lagnaframkvæmdum í Álafosskvosinni var stöðvuð í dag eftir að Jóhannes lagði fram kvörtun um að verið væri að leggja lagnir of nálægt bökkum Varmá. Í kjölfarið var boðað til fundar þar sem hann mætti ásamt formanni byggingar- og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar og fulltrúa verktaka.

Gömlu skolplagnirnar liggja nú þar sem fyrirhugað er að leggja þær nýju. Dæmi eru um að lekið hafi úr skolplögnunum út í Varmá og telja íbúar því skynsamlegra að reynt sé að finna annan stað fyrir nýju lagnirnar.

Lagnaframkvæmdirnar hafa mætt mikilli andstöðu frá íbúum á svæðinu en margir telja þær tengjast umdeildri lagningu Helgafellsbrautar um svæðið. Tvisvar hefur verið kallað á lögreglu vegna málsins og þá voru unnar skemmdir á vinnuvélum aðfaranótt síðastliðins miðvikudags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×