Konstantin Deniss Fokin, 26 ára gamall eistneskur barþjónn, sem búsettur er í Bretlandi, var í dag dæmdur í fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness. Dóminn fær hann fyrir að hafa bókað níu miða til Íslands og þaðan áfram til Norðurlandanna á netinu með stolnum greiðslukortanúmerum. Fokin var handtekinn á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku og hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan. Hann játaði brot sín bæði við yfirheyrslu og í dómi.
Fokin komst yfir greiðslukortanúmerin við störf á barnum í London. Hann pantaði sér alls níu flugferðir til Kaupmannahafnar, Stokkhólms og Osló með viðkomu á Íslandi.
Auk þess þarf barþjóninn Fokin að greiða Icelandair skaðabætur að upphæð 1,3 milljónir.
Undanfarna viku hefur lögreglan á Suðurnesjum varist allra frétta af málinu vegna rannsóknarhagsmuna en Fokin mun hafa komið við sögu áður í fjársvikamálum í Englandi.