Gera mátti nauðsynlegar breytingar á rafkerfi gamla varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli án umdeildrar lagasetningar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum atvinnurekenda í raf-og tölvuiðnaði. Ríkisstjórnin afgreiddi í síðustu viku sérstök bráðabirgðarlög til að heimila notkun bandarísks rafkerfis. Vinna á endurbótum á rafkerfinu er nú hafin en hún felur meðal annars í sér breytingar á rafmagnsöryggi í samræmi við íslenskar reglur og fyrirmæli Neytendastofu.
Taka á fyrstu íbúðir á varnarsvæðinu í notkun í næsta mánuði. Rafvirkjar hafa gagnrýnt það og telja að fyrst verði að gera nauðsynlegar breytingar á rafkerfinu í samræmi við íslenskar reglugerðir.
Ríkisstjórnin afgreiddi hins vegar bráðabirgðarlög í síðustu viku þar sem gefin var tímabundin heimild til að nota núverandi raflagnir. Taldi Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ómögulegt að hægt væri að skipta um rafkerfi áður en íbúðirnar verða teknar í notkun.
Samkvæmt tilkynningu frá Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði er nú þegar er búið að semja við nokkra löggilta rafverktaka varðandi framkvæmd fyrsta hluta verksins. Verkið felur meðal annars í sér breytingar á spennu úr 110 í 230 volt, settar verða nýjar greinatöflur í íbúðir með sjálfvikrum varnarbúnaði og lekastraumsrofavörn og skipt verður um tengla og ljósabúnað þar sem við á.
Samtökin telja hins vegar ljóst að ná hefði mátt markmiðum Þróunarfélagsins án lagasetningarinnar.