Innlent

Ævisaga Laxness færa góðar undirtektir í Noregi

MYND/Úr einkasafni

Ævisaga Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson kom út í Noregi í síðustu viku og hefur fengið afbragðsgóða dóma gagnrýnenda. Einn helsti bókmenntagagnrýnandi landsins segir bókina eina bestu ævisögu sem hún hafi lesið.

Í tilkynningu frá JPV útgáfu segir að Tiden forlagið hafi gefið bókina út í þýðingu þeirra Silje Beite Løken og Ine Camilla Bjørnsten, „og bauð forlagið höfundinum til Noregs að vera viðstaddur útgáfuna, segir í tilkynningunni. „Af því tilefni efndu forlagið og íslenska sendiráðið til móttöku fyrir rithöfunda, útgefendur og fleira áhugafólk í bústað íslenska sendiherrans á miðvikudagskvöldið. Jostein Gaarder rithöfundur flutti ávarp og fagnaði útgáfu bókarinnar sem ætti eftir að auka áhuga á Halldóri Laxness og verkum hans í Noregi og stuðla að því að menn sæju í honum þann stóra evrópska höfund sem hann var. Síðan sagði Halldór Guðmundsson frá Halldóri Laxness og efnistökum sínum."

Þá segir að sama dag hafi fyrsti dómurinn um bókina verið birtur, „en það var hinn virti gagnrýnandi Marta Norheim sem fjallaði um bókina í þættinum Kulturnytt í Norska ríkisútvarpinu. Hóf hún umfjöllun sína á orðunum: „Ævisaga þessi er svo vel hugsuð og vel skrifuð frá fyrstu setningu að maður sogast inn í söguna og óskar þess að hún endist lengi." Þótt hún telji að frásögnin sé stundum of ítarleg yfirgnæfi þó kostir bókarinnar enda sé ævisaga Laxness „ein besta ævisaga sem ég hef lesið." Hún lýkur umfjöllun sinni á orðunum: „Halldór Guðmundsson hefur dregið upp heillandi mynd af listamanni og öldinni."

Halldór Laxness - ævisaga var fyrst gefin út hjá JPV útgáfu árið 2004 og hlaut höfundurinn Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og rita almenns efnis. Bókin mun vera væntanleg í Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi og Englandi, auk Noregs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×