Innlent

Opnað fyrir lóðaumsóknir í Úlfarsárdal

MYND/RVK

Búið er að opna fyrir umsóknir vegna lóða í Úlfarsárdal en alls er um 115 lóðir að ræða. Lóðum verður úthlutað á föstu verði og eru dýrustu lóðirnar metnar á 11 milljónir króna. Áætlanir gera ráð fyrir að hverfið byggist hratt upp og að þar muni búa um 10 þúsund manns.

Samkvæmt tilkynningu frá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir að lóðirnar sem nú eru auglýstar verði byggingarhæfar í október næstkomandi. Um er að ræða 115 lóðir fyrir 388 íbúðir.

Lóðum verður úthlutað á föstu verði en síðast voru lóðirnar boðnar út og fengu hæstbjóðendur. Lóð fyrir einbýlishús kostar 11 milljónir króna, verð fyrir íbúð í parhúsi eða raðhúsi er 7,5 milljónir króna og íbúð í fjölbýlishúsi kostar 4,5 milljónir króna.

Í úthlutunarreglunum nú er ákvæði um að ef lóðarhafi selji innan sex ára frá dagsetningu lóðaleigusamnings gjaldfalli svokallað viðbótargjald sem nemur 2 til 5 milljónum króna eftir húsgerð. Eftir sex ár fellur krafan hins vegar niður.

Aðeins verður hægt að sækja um tiltekna húsgerð en ekki tiltekna lóð. Umsóknarfrestur er til 13. júní næstkomandi.

Sjá nánar á vef Reykjavíkurborgar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×