Innlent

Mikil aukning umferðarlagabrota

MYND/HÞG

Umferðarlagabrot í umdæmi lögreglunnar á Egilsstöðum og Seyðifirði hafa aukist um 140 prósent á fyrstu fimm mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Í síðasta mánuði voru 121 ökumaður tekinn í umdæminu vegna umferðarlagabrots en í sama mánuði í fyrra voru þeir 37 talsins. Aukið eftirlit og markvissari stýring umferðareftirlits skýrir að mestu þessa fjölgun.

„Þetta eru samverkandi þættir. Við höfum aukið eftirlit á vegum og gert það markvissara," sagði Óskar Bjartmarz, hjá lögreglunni á Egilsstöðum, í samtali við Vísi.

Samkvæmt afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra fyrir síðastliðinn aprílmánuð voru 121 umferðarlagabrot skráð í umdæmi lögreglunnar á Seyðisfirði og Egilsstöðum í síðasta mánuði. Á sama tíma í fyrra voru brotin 37 og því aukist um nærri 300 prósent milli ára.

Óskar segir fyrst og fremst um hraðakstursbrot að ræða en segir lögregluna ekki hafa breytt neinum viðmiðunum. „Við höfum ekki breytt neinum viðmiðum. Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs voru 140 prósent fleiri hraðakstursbrot skráð hjá okkur miðað við sama tímabil í fyrra."

Sama er upp á teningnum hjá lögreglunni á Sauðárkróki en þar voru rúmlega 100 prósent fleiri umferðarlagabrot skráð hjá lögreglunni í apríl miðað við sama mánuð í fyrra. Alls voru 86 ökumenn teknir í umdæminu í apríl en í fyrra voru þeir 39 talsins.

Að sögn lögreglunnar á Sauðárkróki skýrist aukning fyrst og fremst af auknu eftirliti. Frá áramótum hefur verið gerður út sérstakur lögregluþjónn frá embættinu sem hefur það eina hlutverk að hafa eftirlit með umferð á þjóðveginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×