Innlent

Fékk enga skýringu á því hvers vegna hann var settur af

Jóhannes Geir Sigurgeirsson kveðst enga skýringu hafa fengið á því hvers vegna hann er látinn hætta sem stjórnarformaður Landsvirkjunar. Jóhannes verður settur af á aðalfundi sem hefst klukkan eitt, gegn vilja sínum.

Stjórn Landsvirkjunar kom saman í morgun til síðasta stjórnarfundar fyrir aðalfund síðar í dag en þetta er jafnframt síðasti fundurinn sem Jóhannes Geir Sigurgeirsson stýrir.

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi stendur til að Páll Magnússon, fyrrverandi aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur, setjist í formannssætið sem Jóhannes Geir hefur haft í tíu ár. Jóhannes segist hafa stefnt að því að sitja eitt ár enn.

Gert er ráð fyrir að aðrir stjórnarmenn verði endurkjörnir, þau Valur Valsson, fyrrverandi bankastjóri, sem er varaformaður, Jóna Jónsdóttir, forstöðumaður í Háskólanum á Akureyri, Ágúst Einarsson rektor Háskólans á Bifröst, og Valdimar Hafsteinsson framkvæmdastjóri Kjöríss.

Heimildarmenn Stöðvar tvö segja að ólga sé innan Framsóknarflokksins vegna stjórnarformannsskiptanna og er fullyrt að til snarpra orðaskipta hafi komið milli ráðherra flokksins í fyrradag. Formannsskiptin eru talin gerð að undirlagi Jóns Sigurðssonar, formanns flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×