Innlent

Íslensk hönnun í Fógetahúsið

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Þröstur Ólafsson, formaður stjórnar Minjaverndar, festu í fyrradag skjöld utan á Aðalstræti 10 til að staðfesta að endurgerð hússins væri formlega lokið.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Þröstur Ólafsson, formaður stjórnar Minjaverndar, festu í fyrradag skjöld utan á Aðalstræti 10 til að staðfesta að endurgerð hússins væri formlega lokið. MYND/GVA

Enduruppbyggingu elsta húss miðborgarinnar er lokið. Sem tákn um það festu Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og fulltrúar Minjaverndar á miðvikudag upp skjöld utan á Aðalstræti 10.

Húsið í Aðalstræti 10 var reist árið 1762 og er því elst húsa í miðborg Reykjavíkur. Viðeyjarstofa, sem reist var 1755, er elsta hús Reykjavíkur.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var Aðalstræti 10 upphaflega notað sem klæðageymsla. Meðal þeirra sem hafa átt aðsetur í húsinu er Jón Sigurðsson forseti. Kaupmennirnir Silli og Valdi keyptu það árið 1926 og ráku þar verslun í áratugi.

Frá árinu 1984 hafa ýmsir veitingastaðir verið þar til húsa, meðal annars Fógetinn. Reykjavíkurborg keypti Aðalstræti 10 árið 2001 og hófst enduruppbygging hússins haustið 2005.

Að baki gamla húsinu hefur verið byggt nýtt steinhús, af svipaðri stærð og lögun og það gamla. Húsin tengjast með glerskála. Á neðri hæð gamla hússins verður Reykjavíkurborg með aðstöðu til að sýna sögu hússins og götunnar. Þá mun hópur íslenskra hönnuða og fjárfesta hafa stofnað fyrirtæki um verslun til að selja íslenska hönnunarvöru í húsinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.