Enski boltinn

Ítarleg upphitun fyrir leiki helgarinnar

NordicPhotos/GettyImages

Enski boltinn rúllar á fullu alla helgina þar sem Englendingar einbeita sér nú að félagsliðum sínum á ný eftir vonbrigði landsliðsins. Að venju eru nokkrir áhugaverðir leikir á dagskrá þar sem tveir nýir stjórar mæta til starfa.

Það verða bikarmeistarar Chelsea sem ýta úr vör klukkan 12:45 á morgun þegar þeir taka á móti grönnum sínum í West Ham í fyrsta leik dagsins. Chelsea er á fínni siglingu eftir fínan sigur á Rosenborg í Meistaradeildinni í vikunni.

Fimm leikir hefjast svo á hefðbundnum tíma klukkan 15. Steve Bruce ætti með öllu að rata inn í búningsherbergin á JJB Stadium þar sem hann stýrir liði Wigan í fyrsta sinn gegn grönnum sínum í norð-vestrinu - spútnikliði Manchester City. Bruce hætti hjá Birmingham á dögunum eftir sex ára starf, en hann var þar áður stjóri Wigan í skamman tíma.

Hugtakið "sex stiga leikur" er oft notað í fótboltanum, en það er líklega besta lýsingin á leik Sunderland og Derby þar sem bæði lið þurfa mjög nauðsynlega á öllum stigunum að halda. Sunderland er enn að jafna sig eftir að hafa verið kjöldregið af Sunderland 7-1 á dögunum, en Paul Jewell stýrir liði Derby í fyrsta skipti á morgun.

Leikur Blackburn og Newcastle verður líka mjög áhugaverður þar sem bæði lið fengu óþægilega skelli á heimavelli í síðasta leik gegn Aston Villa og Liverpool.

Gareth Southgate hlýtur að vera farinn að skjálfa á beinunum eftir að fyrstu stjórarnir voru reknir á leiktíðinni, en hans menn í Middlesbrough þurfa á öllu sínu besta að halda gegn Reading á útivelli ef ekki á illa að fara.

Portsmouth og Everton leiða saman hesta sína á Fratton Park, en það verður leikur tveggja liða sem hafa átt góðu gengi að fagna að undanförnu. Vikan hefur verið Harry Redknapp stjóra Portsmouth erfið en hann gæti tekið gleði sína á ný ef lið hans nær að leggja Everton á morgun.

Topplið Arsenal á svo erfiða ferð fyrir höndum í lokaleik dagsins þar sem það fer til Birmingham og mætir heitu liði Aston Villa. Villa burstaði Blackburn á útivelli í miðri viku og verður eflaust meira en tilbúið í toppliðið.

Á sunnudaginn tekur jójólið Tottenham á móti Birmingham þar sem nýráðinn knattspyrnustjóri Alex McLeish mun stýra Birmingham í fyrsta skipti. Tottenham slapp við kinnroða í gærkvöld þegar liðið lagði Álaborg 3-2 í æsilegum leik á heimavelli, en Juande Ramos hefur sem stendur aðeins úr einum heilum miðverði að moða í hóp sínum og því er ekki séð fyrir vandræði liðsins í varnarleiknum.

Síðari leikur sunnudagsins er svo viðureign Liverpool og Bolton á Anfield þar sem lærisveinar Rafa Benitez koma væntanlega vel stemmdir til leiks eftir nokkuð sannfærandi sigur í Meistaradeildinni í vikunni.

Nokkrir punktar um leiki helgarinnar
NordicPhotos/GettyImages

Chelsea - West Ham laugardag klukkan 12:45 Sýn 2 - Lýst beint frá Englandi

Chelsea hefur unnið tvo af síðustu þremur leikjum sínum gegn West Ham 4-1. Didier Drogba er búinn að skora þrú mörk í síðustu fjórum leikjum sínum gegn West Ham.

Blackburn - Newcastle laugardag klukkan 15:00 Sýn Extra

Newcastle hefur unnið þrjá og tapað ellefu af síðustu 17 útileikjum sínum í úrvalsdeildinni. Síðustu fjórir leikir Blackburn og Newcastle hafa endað með útisigri.

Portsmouth - Everton laugardag klukkan 15:00 Sýn 2

Portsmouth hefur ekki tapað í 10 leikjum í röð á Fratton Park. Þrír af síðustu fjórum leikjum liðsins þar hafa reyndað endað með markalausu jafntefli, en fjórði leikurinn var reyndar ótrúlegur 7-4 sigur liðsins á Reading - sem er úrvalsdeildarmet yfir flest mörk skoruð í einum leik.

Reading - Middlesbrough laugardag klukkan 15:00 Sýn Extra 2

Reading spilaði fyrsta leik sinn á síðustu leiktíð gegn Boro þar sem liðið lenti undir 2-0 en vann 3-2. Boro hefur hinsvegar unnið fjóra af síðustu fimm leikjum liðanna í öllum keppnum.

Sunderland - Derby laugardag klukkan 15:00 Sýn Extra 4

Sunderland hefur unnið fimm og gert þrjú jafntefli í síðustu átta viðureignum sínum við Derby og þar af hefur Derby ekki tekist að vinna í síðustu 12 heimsóknum sínum til Sunderland.

Wigan - Manchester City laugardag klukkan 15:00 Sýn Extra 3

Wigan hefur unnið alla fjóra leiki sína gegn Manchester City í úrvalsdeildinni og þar af skoraði liðið fjögur mörk í báðum heimaleikjunum sínum. Antoine Sibierski skoraði fyrir City í 4-3 tapi liðsins gegn Wigan í desember fyrir þremur árum, en hann er nú leikmaður Wigan.

Aston Villa - Arsenal laugardag klukkan 17:15 Sýn 2

Arsenal hefur ekki tapað í síðustu 17 leikjum sínum gegn Villa og hefur unnið 12 þeirra. Villa vann síðast sigur á Arsenal í desember árið 1998 þar sem liðið lenti undir 2-0 en sigraði 3-2.

Liverpool - Bolton Sunnudag klukkan 15:00 Sýn 2

Liverpool hefur unnið sjö og gert eitt jafntefli í síðustu átta heimaleikjum sínum við Bolton í úrvalsdeildinni. Bolton hefur aðeins skorað einu sinni í síðustu fimm heimsóknum sínum á Anfield.

Tottenham - Birmingham sunnudag klukkan 16:00 Sýn Extra í háskerpu

Tottenham hefur unnið alla fjóra heimaleiki sína gegn Birmingham í úrvalsdeildinni. Robbie Keane hefur skorað fjögur mörk í síðustu sex deildarleikjum sínum gegn þeim bláklæddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×