Innlent

Aðstöðuleysi og lágir launataxtar helstu skýringar biðlista

Tryggingastofnun vísar því alfarið á bug að kjaradeila milli svæfingarlækna og stofnunarinnar valdi því að eitthundrað börn bíði eftir að komast í svæfingu vegna tannviðgerða. Svæfingarlæknir segir aðstöðuleysi og lága launataxta helstu skýringar á biðlistum.



Í fréttum stöðvar tvö í gær var greint frá því að um eitthundrað börn á aldrinum 3ja til sex ára biðu eftir svæfingu vegna tannviðgerða í Reykjavík. Svæfingarlæknar hafa verið ósáttir við launataxtann sem þeir fá fyrir svæfingar vegna tannviðgerða á tannlæknastofum þar sem hann er mun lægri en fyrir annars konar aðgerðir. Sveinn Geir Einarsson svæfingarlæknir segir að launataxtinn fyrir svæfingar vegna tannviðgerða sé það lágur að svæfingalæknar taki önnur verkefni fram yfir.



Sveinn segir fáa svæfingarlækna taka að sér þessi verkefni og aðstaða sem uppfylli öryggiskröfur utan spítalanna hafi ekki verið til staðar. Varasamt sé að svæfa ung börn á stofum þar sem ekki sé fullnægjandi búnaður. Hann segir svæfingarlækna vera tilbúna að svæfa börn á skurðstofum þar sem ítrustu öryggiskrafna sé gætt.



Kristján Guðjónsson framkvæmdastjóri sjúkratryggingasviðs Tryggingastofnunar vísar því alfarið á bug að um kjaradeilu milli svæfingalækna og stofnunarinnar sé að ræða. Hann segir enga skriflega kröfugerð um breytingar á taxtanum hafa borist samninganefnd heilbrigðisráðherra. Í gildi séu samningar um taxta á þessum aðgerðum sem gildi til marsloka 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×