Innlent

Skólabækurnar misdýrar eftir verslunum

MYND/GVA

Í verðkönnum sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi í sjö bókaverslunum á höfuðborgarsvæðinu í dag kom í ljós að mikill verðmunur er á milli verslana þegar kemur að námsbókum. Rúmlega 80 prósenta munur var á hæsta og lægsta verði á nýjum bókum og munurinn var enn meiri þegar kemur að notuðum bókum, eða 111,1 prósent.

Á heimasíðu ASÍ kemur fram að kannað hafi verið verð á 29 algengum nýjum náms- og orðabókum og 26 notuðum kennslubókum í framhaldsskólum. Griffill í Skeifunni reyndist oftast bjóða lægsta verðið á nýjum bókum eða á 13 titlum, en Office 1 var með lægsta verð á 12 nýjum titlum. Griffill kom einnig best út þegar verð á notuðum bókum var kannað eða í 15 tilfellum af 26.

Það var bókabúð Máls og menningar sem oftast var með hæsta verðið nýjum bókum og Penninn Eymundsson í Kringlunni var oftast með dýrustu notuðu bækurnar.

Í könnuninni kemur einnig fram mikill munur á verði notaðra og nýrra bóka. Á heimasíðu ASÍ segir að ekki sé óalgengt að nýjar bækur séu 50 til 70 prósent dýrari en þær notuðu. Þó er tekið fram að ekki var lagt mat á gæði þeirra bóka sem seldar eru notaðar.

Verðlagseftirlitið beinir því til námsmanna að hafa það hugfast að verð á algengum bókatitlum breytist oft ört hjá verslunum við upphaf skólaársins auk þess sem úrval notaðra bóka sé mjög misjafnt eftir verslunum.

Kannað var verð í eftirtöldum verslunum: Máli og menningu Laugavegi, Skólavörubúðinni Smiðjuvegi, Bóksölu stúdenta Hringbraut, Pennanum-Eymundsson Kringlunni, Office 1 Skeifunni, Griffli Skeifunni og Bókabúðinni Iðnú Brautarholti. Í öllum verslunum voru seldar nýjar bækur en notaðar bækur voru ekki seldar í Bóksölu stúdenta og Iðnú.

Þá tekur ASÍ fram að verslunin Iða í Lækjargötu heimilaði ekki að verð í versluninni væri kannað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×