Innlent

Gengishrunið kostaði neytendur 13 milljarða á einum mánuði

Hjalti Sigurðarson: Neytendasamtökin hvöttu neytendur til að losa sig við myntlánin.
Hjalti Sigurðarson: Neytendasamtökin hvöttu neytendur til að losa sig við myntlánin.

Gengi íslensku krónunnar hefur fallið um 14% undanfarnar fjórar vikur. Þar sem íslenskir neytendur eru nú með um 90 milljarða kr. bundna í myntlánum hefur þetta gengishrun kostað þá um 13 milljarða kr. í auknum höfuðstól og afborgunum af þessum lánum.

Myntlán hafa einkum verið tekin til að fjármagna íbúða- og bílakaup. Sem dæmi má taka að fjölskylda sem keypti sér 20 milljón kr. íbúð fyrr í sumar með myntláni horfir nú fram á rúmlega 2,5 milljónir kr. í auknum höfuðstól og afborgunum af því láni. Það þýðir aukna byrði upp á um 15.000 kr. að meðaltali á mánuði. Og einstaklingur sem keypti sér milljón kr. bifreið fyrr í sumar horfir nú fram á 140.000 kr. í hærri höfuðstól auk 14% í auknar afborganir.

Hjalti Sigurðarson hagfræðingur Neytendasamtakanna segir að "samtökin hafi hvatt neytendur í síðasta mánuði til að losa sig við myntlánin". Hann bætir því við að reikna megi með að vöruverð í landinu fari nú hækkandi samfara hinu mikla gengisfalli.

"Það hefur verið reynsla okkar að fyrirtæki og verslanir hafa verið sein til að lækka verð hjá sér þegar gengið hefur styrktst en fljót að hækka verðið þegar gengið hefur veiktst," segir Hjalti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×