Innlent

Engan bjór í Austurstræti

Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, vill samhent átak til að bæta miðborgarmenninguna
Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, vill samhent átak til að bæta miðborgarmenninguna

Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, vill samhent átak til að bæta ástandið í miðbænum. Hann er ánægður með fund borgaryfirvalda og lögreglunnar í morgun. Hann ætlar að funda með veitingahúsa- eigendum í næstu viku. Björn Ingi vill að Vínbúðin í Austurstræti hætti að selja bjór í stykkjatali. Borgarstjóri tekur undir orð Björns Inga.

Björn Ingi segir að til greina komi að endurskoða opnunartíma skemmtistaða, eins og lögreglustjóri hefur lagt til. Hann vill einnig lýsa upp miðborgina til að fækka dimmum skúmaskotum þar sem hægt er að fremja ýmsan ógerning. Þá vill Björn jafnframt fjölga öryggismyndavélum. Björn Ingi kveðst ánægður með fundinn sem haldinn var með lögreglustjóra í dag og segir borgaryfirvöld hafa áform um fundi með fleiri aðilum vegna málsins.

Björn segir að ýmsir aðilar þurfi að hjálpa til við að laga ástandið í miðbænum. „Ég nefni sem dæmi að Vínbúðin í Austurstræti selur bjór í stykkjatali á 150 krónur. Það gefur augaleið að þetta eykur aðgengið að áfengi og er ekki til þess fallið að bæta ástandið í miðbænum," segir Björn.

Björn leggur sérstaka áherslu á að fólk megi ekki gera sér upp of dökka mynd af bænum. Reykjavíkurborg sé enn ein öruggasta borg í heimi.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri tekur undir orð Björns Inga. Hann segir að borgin muni efla vinnu við útgáfu vínveitingaleyfa og eftirlit með veitingastöðum. Hann tekur ágætlega í hugmyndir um breytingu á opnunartíma skemmtistaða en segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×