Innlent

Best rekna ríkisstofnunin stolt af árangrinum

Ólafur Proppé: "Ákveðin í að gera okkar besta hverju sinni."
Ólafur Proppé: "Ákveðin í að gera okkar besta hverju sinni."

"Við leggjum stolt okkar í að halda okkur innan þess ramma sem fjárlögin setja okkur," segir Ólafur Proppé rektor Kennaraháskólans en skólinn er sú ríkisstofnun sem er hvað best rekin miðað við fjárlög. Raunar notar Ríkisendurskoðun skólann oft sem dæmi um velrekna ríkisstofnun.

Ólafur Proppé segir að það sé oft ekki einfalt að halda sig innan þess fjárlagaramma sem skólanum er settur. "En við erum ætíð ákveðin í að gera okkar besta hverju sinni," segir Ólafur. "Við gerum eins góðar áætlanir og hægt er á hverju ári og stöndum svo við þær. En þetta er hópvinna starfsfólksins og við erum til dæmis með mjög góða fjármálastjórn."

Aðspurður um hvort þessi stefna sem hann lýsir komi að einhverju leyti niður á þeirri þjónustu sem skólinn veitir segir Ólafur að hann telji slíkt ekki vera. "Ég tel að skólinn veiti mjög góða þjónustu," segir Ólafur. "Að vísu höfum við þurft að hafna hæfum umsækjendum um vist í skólanum og það í nokkrum mæli. En málið er einfaldlega að við sníðum okkur stakk eftir vexti hverju sinni."

Aðspurður um hvort hann væri til í að halda námskeið fyrir aðra ríkisforstjóra hlær Ólafur við og segir: "Nei ég held ég láti slíkt vera."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×