Innlent

Ráðuneyti telja ómögulegt að refsa ríkisforstjórum

"Það er engin spurning í okkar huga að ráðuneytin eiga að notfæra sér þær heimildir sem til staðar eru," segir Gunnar Svavarsson.
"Það er engin spurning í okkar huga að ráðuneytin eiga að notfæra sér þær heimildir sem til staðar eru," segir Gunnar Svavarsson.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunnar um framkvæmd fjárlaga á síðasta ári kemur fram að viðmælendur Ríkisendurskoðunnar í einstökum ráðuneytum hafi borið því við að réttarstaða starfsmanna ríkisins sé það sterk að í reynd sé nær ógjörningur að ná fram áminningu fari viðkomandi stofnun framúr fjárlögum. Gunnar Svavarsson formaður fjárlaganefndar segir að þótt ferlið sé flókið og erfitt muni nefndin leggja aukinn þunga á að áminningar verði veittar ef ástæða er til.

"Það er engin spurning í okkar huga að ráðuneytin eiga að notfæra sér þær heimildir sem til staðar eru," segir Gunnar Svavarsson. "Enda bendir Ríkisendurskoðun réttilega á að þetta eigi ekki að vera neinu ráðuneyti ofviða enda til ítarlegar leiðbeiningar um reglur og form á slíku ferli."

Gunnar Svavarsson segir að Grímseyjarferjan sé skólabókardæmi um það að farið sé frammúr heimildum og að samgönguráðuneytið hefði fyrir löngu átt að grípa inn í þá framkvæmd og veita áminningu.

Gunnar Svavarsson segir að í kjölfar umræðunnar um skýrslu Ríkisendurskoðunnar muni fjárlaganefnd í næstu viku kalla til fulltrúa fjármálaráðuneytisins til að fara málin í heild sinni og síðan ræða við önnur ráðuneyti í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×