Innlent

Fimm blind ungmenni fengu ekki greidd laun

Fengu ekki laun um síðustu mánaðamót.
Fengu ekki laun um síðustu mánaðamót. MYND/GVA

Fimm blind og sjónskert ungmenni sem hafa verið í vinnu hjá Hinu Húsinu í Reykjavík í sumar fengu ekki greidd laun um síðustu mánaðamót. Þá fengu tveir leiðbeinendur ungmennanna aðeins hluta af sínum launum útborguð. Formaður Ungblind segist vona að um villu í bókhaldi sé að ræða frekar en að Sveitarfélög séu að mismuna fötluðum einstaklingum.

„Ég fór að skoða þetta í kjölfar frétta um að fötluð ungmenni hafi ekki fengið laun í samræmi vinnuframlag, " sagði Bergvin Oddson, formaður Ungblind, í samtali við Vísi. „Þá kom í ljós að enginn hafði fengið útborgað um síðustu mánaðamót."

Um er ræða fimm blind og sjónskert ungmenni á aldrinum 16 til 19 ára og tvo leiðbeinendur. Fjögur ungmennanna áttu að fá greiðslu frá Reykjavíkurborg en eitt þeirra frá Hafnarfjarðarbæ. Þá fengu að sögn Bergvins leiðbeinendur krakkanna aðeins hluta af sínum launum útborgað.

Krakkarnir hafa unnið í sérverkefni hjá Hinu Húsinu í sumar þar sem gerð er úttekt á aðgengi blindra að stofnunum og stöðum í þjóðfélaginu.

Bergvin segist vona að einföld mistök valdi því að krakkarnir hafi ekki fengið útborgað. „Ég vona að þetta séu einhver bókhaldsmistök frekar en að sveitarfélög séu að notfæra sér fötlun einstaklinga," sagði Bergvin.

Fram kom í fjölmiðlum í síðustu viku að fjöldi fatlaðra ungmenna sem taka þátt í sérstöku samstarfsverkefni vegna sumarvinnu hafi ekki fengið laun í samræmi við vinnuframlag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×