Innlent

Grænt ljós á samgöngumiðstöð

Samgönguráðherra hefur falið Flugstoðum að hefja undirbúning að smíði samgöngumiðstöðvar á Reykjavíkurflugvelli og segir Sturla Böðvarsson að framkvæmdir geti hafist eftir átta mánuði. Ráðherra segir niðurstöðu nefndar um flugvöllinn vera þá að þjóðhagslega hagkvæmt kunni að vera að gera nýjan flugvöll á Hólmsheiði eða Lönguskerjum en fyrst þurfi fjögurra ára rannsóknir á flugtæknilegum þáttum.

Skýrsla nefndar um framtíð Reykjavíkurflugvallar er tilbúin og er byrjað að kynna niðurstöður fyrir áhrifamönnum. Sturla segir niðurstöðu nefndarinnar þá að besti kosturinn frá sjónarhóli flugrekenda sé að völlurinn sé áfram í Vatnsmýrinni en hins vegar kunni það að vera þjóðhagslega hagkvæmt að byggja flugvöll annarsstaðar innan Reykjavíkursvæðisins, á Lönguskerjum eða Hólmsheiði, ef hægt er að selja löndin undir byggingar. Sá hængur sé hins vegar á, skv. niðurstöðu nefndarinnar, að það liggi ekki fyrir núna hvort flugtæknilegar aðstæður, veðurfar og annað, gefi færi á að byggja flugvöll á stað eins og Hólmsheiði, og næstu fjögur árin þurfi að rannsaka þessar aðstæður, bæði á Hólmsheiði og Lönguskerjum, að sögn samgönguráðherra.

Annar heimildarmaður túlkaði niðurstöðu skýrslunnar þannig að flugvöllurinn færi upp á Hólmsheiði.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hvatti til þess um helgina að Reykjavíkurflugvöllur gegndi áfram lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs og vísaði til mikilvægis þess að allir landsmenn hefðu greiðan aðgang að opinberri þjónustu. Ennfremur taldi landsfundurinn mikilvægt að hraða uppbyggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll.

Sturla kveðst hafa fullan stuðning landsfundarins til þess sem han hafi nú þegar ákveðið að hefja undirbúning að byggingu samgöngumiðstöðvar. Segir hann að smíði þurfi ekki að taka nema 24 mánuði. Undirbúningur ætti ekki að taka nema átta mánuði og framkvæmdir gætu þá hafist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×