Innlent

Lækkun matvælaverðs skilar sér ekki að fullu til neytenda

MYND/Valgarður

Lækkun á virðisaukaskatti og vörugjöldum á matvælum hefur ekki skilað sér að fullu til neytenda samkvæmt úttekt verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands. Verslanir 10-11 standa sig áberandi verst. Mest lækkuðu hvers konar gosdrykkir í verði í þeim fimm verslunum sem úttektin náði til.

Verðmælingar fóru fram í verslunum Hagkaupa, Nóatúns, Kjarval og klukkubúðunum 10-11 og 11-11 frá desember til loka marsmánaðar. Mest lækkaði verð eftir skattalækkanir í verslun 11-11 um 8,5 prósent en minnst í 10-11 um 4,4 prósent.

Mánuðina fyrir lækkun virðisaukaskatts og vörugjalda hækkaði verð mest í verslun 10-11 eða um 4,3 prósent. Því hefur vöruverð í í verslunum 10-11 aðeins lækkað að meðaltali um 0,1 prósent frá því í desember á síðasta ári.

Í verslunum Hagkaupa lækkaði verð um 7,7 prósent eftir skattalækkanir en hækkaði um 1,6 frá desember til loka febrúarmánuðar. Í verslunum Kjarval lækkaði verð um 6,3 prósent eftir lækkun virðisaukaskatts og vörugjalda en þar á undan hafði það hækkað um 2,7 prósent. Í verslunum Nóatúns lækkaði verð um 5,9 prósent eftir skattalækkanir en hafði hækkað um 1,3 mánuðina þar á undan.

Af einstökum vöruflokkum lækka gosdrykkir, safar og kolsýrt vatn mest í öllum verslunarkeðjunum. Þá lækkar verð á sykri, sætindum og súkkulaði auk vörflokksins kaffi, te og kakó næstmest.

Fram kemur í úttekt Alþýðusambandsins að í upphafi árs hafi Hagstofa Íslands áætlað að lækkun á virðisaukaskatti myndi lækka verð á mat og drykkjarvörum um 7,4 prósent og niðurfelling á vörugjöldum um 1,3 prósent til viðbótar. Alls 8,7 prósent.

Samkvæmt úttektinni hefur vöruverð í verslunarkeðjunum fimm hins vegar aðeins lækkað um 6,56 prósent að meðaltali sem er rúmum tveimur prósentustigum minna en áætlanir Hagstofunnar gerðu ráð fyrir.

 

Tekið er sérstaklega fram að ekki er um verðsamanburð á milli verslanakeðja að ræða heldur einungis lagt mat á verðbreytingar innan hverrar keðju fyrir sig.

Sjá könnun ASÍ hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×