Innlent

Ganga til viðræðna við borgina um Lækjargötu 2

Borgarstjóri getur ekki lofað þeim sem voru með rekstur í Lækjargötu 2 áður en húsið brann, að þeir geti haldið rekstrinum áfram eftir að húsið hefur verið endurbyggt. Það skýrist á næstu tveimur vikum eða svo, hvort borgin kaupir lóðir húsanna sem brunnu í miðborginni, en eigendur Lækjargötu 2 hafa samþykkt að ganga til viðræðna við borgina.

Miklar breytingar eru framundan í miðborg Reykjavíkur, ekki bara vegna uppbyggingar húsanna sem brunnu, heldur líka vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar. Í tengslum við byggingu tónlistarhússins er gert ráð fyrir að veglegt torg verði til út frá Lækjartorgi og því eru dagar strætóhússins við Hafnarstræti taldir.

Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson borgarstjóri hefur ítrekað að hann vilji Lækjargata tvö og Austurstræti 22 verði endurbyggð sem næst upprunalegri mynd og er að láta kanna möguleika á að borgin kaupi lóðirnar til að flýta fyrir uppbyggingunni. En hann segist ekki geta lofað að þeir sem voru með rekstur í húsunum verði það í framtíðinni.

Borgarstjóri vill að þessari uppbyggingu ljúki sem fyrst en fyrst þarf að hanna húsin og fara í gegnum skipulagsferli. Hann vonar að búið verði að byggja á lóðunum innan tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×