Lífið

Leðursérfræðingur sér um fatnað Eiríks í Helsinki

Eiríkur Hauksson kýs hið einfalda fram yfir hið flókna enda komi það til að gera atriðið sérstakt.
Eiríkur Hauksson kýs hið einfalda fram yfir hið flókna enda komi það til að gera atriðið sérstakt.

Leðurfrakkinn góði sem Eiríkur Hauksson klæddist þegar hann söng til sigurs í Eurovision-keppni Sjónvarpsins verður víðs fjarri í Helsinki. Þetta staðfesti Eiríkur þegar Fréttablaðið náði tali af honum á heimili hans í Noregi, nýlentur eftir erfiða törn um helgina þar sem legið var yfir þeim hlutum sem enn átti eftir að fastnegla fyrir stóru stundina.

„Mér fannst það eiginlega of „heavy“ að vera í þessum frakka. Útlitið á mér, með þetta síða hár var alveg nógu rokkað,“ bætir Eiríkur við en lýsti því yfir að leðurbuxurnar yrðu þó á sínum stað. „Þetta verður ekkert í líkingu við Gleðibankann, þar sem maður var píndur í búning og nokkur dansspor,“ bætir Eiríkur við.

Eiríkur hyggst vera með gítarstrákana góðu á sviðinu enda segir hann þá vera farna að fíla sig vel með. Þó verða engar bakraddir en eftir því sem Fréttablaðið kemst næst mun þetta vera í eitt örfárra skipta ef ekki eina skiptið þar sem íslenska framlagið er ekki stutt af bakraddasöngvurum. „Í laginu er ekki nema ein lína sem er rödduð og þar sem enginn af strákunum er söngvari þá þótti okkur ekki ástæða til að fara þá leið,“ útskýrir söngvarinn og bætti því við að þeir myndu jafnframt reyna að laga atriðið að sviðinu í Helsinki sem verður víst frekar lítið. „Kosturinn við okkar atriði, held ég, er að það verður ákaflega sérstakt af því að það er svo einfalt,“ segir Eiríkur.

„Þetta er leyndarmál þar til þar að kemur,“ segir Grétar Baldursson, hinn landskunni leðurhönnuður í versluninni Kos-leður á Laugavegi, en honum hefur verið fengið hið vandasama verk að sérvelja jakka á Eirík Hauksson til að klæðast á sviðinu í Eurovision. Mikil leynd hvílir yfir öllu verkefninu og því ekki hægt að fá uppgefið hvernig jakkinn verði þótt augljós sé að hann verði ögn „léttari“ en frakkinn góði. Verði mitt á milli frakka og jakka.

 

Grétar Baldursson Velur jakka á Eirík Hauksson sem á að koma í staðinn fyrir leðurfrakkann góða.fréttablaðið/vilhelm

Grétar hefur áður hannað leðurfatnað á lögregluna og Skítamóral og gerir sér fyllilega ljóst að hans bíður vandasamt verk sem þjóðin mun fylgjast grannt með. „Eiríkur er mesti rokkari landsins og hefur margoft keypt föt af mér,“ segir Grétar. „En fólk verður að styðja mig í því að halda þessu leyndu enda á þetta að koma á óvart,“ bætir Grétar við. „Þetta er líka áhugamál hjá mér; að gera vel fyrir Eirík og ég mun vinna nótt sem nýtan dag við að gera þetta sem glæsilegast úr garði,“ útskýrir Garðar. „Ég get þó lofað því að hann verður ROSALEGUR!“

Sigurður Freyr Björnsson, hjá BaseCamp, vildi ekki láta mikið uppi um fatnað Eiríks en sagði þó að fókusinn yrði á leður. „Við erum ekki bara að skoða föt sem Eiríkur verður í á sviðinu heldur líka dags daglega enda er Eiríkur í beinni allan tímann þegar hann er loksins lentur í Helsinki og stígur út fyrir hótelherbergið,“ sagði Sigurður Freyr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.