Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnabrot og vörslu ólöglegs skotvopns

MYND/Ingólfur A.

Karlmaður á fertugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á fíkniefnalögum og fyrir vörslu ólöglegs skotvopns. Þá var manninum gert að greiða tæpar 300 þúsund krónur í málsvarnar- og sakarkostnað.

Lögreglan í Reykjavík fann við leit í bíl mannsins í októbermánuði í fyrra 12,85 grömm af amfetamíni, 94,46 grömm af hassi og einn skammt af vímuefninu LSD. Þá fann lögreglan ennfremur skammbyssu af gerðinni Taurus 357 Magnum.

Tæpum þremur vikum seinna var maðurinn stöðvaður í miðbæ Reykjavíkur eftir að hafa ekið yfir á rauðu ljósi. Við leit í bílnum fann lögreglan 37,81 grömm af amfetamíni, 4,17 grömm af hassi og 0,33 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni. Þá framvísaði maðurinn gasvopni sem hann hafði í fórum sínum.

Maðurinn játaði sekt sína að hluta en vildi ekki kannast við að hafa átt þau fíkniefni sem fundust við leit í bílnum í seinna skiptið. Þá bifreið var hann með í láni frá vini sínum og sagðist hann ekki hafa vitað af fíkniefnunum. Á þá skýringu féllst dómarinn enda hafði maðurinn ekki haft umráð yfir þeirri bifreið nema í skamman tíma. Var hann því sýknaður af þeim hluta ákærunnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×